Með sýningunni Rammgert renna saman heimar myndlistarmannsins Kristínar Gunnlaugsdóttur og Viktors Péturs Hannessonar, sýningarstjóra og innrammara sýningarinnar.
Rammar geta verið alls konar. Þeir segja allir sína sögu. Öfugt við hefðbundna innrömmun á listaverkum, þar sem fundin er smekkleg umgjörð sem styður við verkið og lætur okkur finnast það fullgert, er ferlinu hér snúið við og rammanum leyft að gefa tóninn að gerð listaverksins.
Handverk og hagnýting standa saman og fara svo í rammgerða svaðilför undir leiðsögn Kristínar. Hún nýtir sér m.a. tilbúinn ramma, sérunninn með blaðgulli samkvæmt hefð evrópskrar myndlistar, en einnig tekur hún af ruslahaug neyslusamfélagsins þar sem ónýtar tréspýtur fá uppreisn æru og verða á sinn hrjúfa hátt órjúfanlegur hluti listaverksins. Verkin sjálf búa yfir eigin tungumáli og eru unnin með blönduðu handverki hins háleita og hógværa. Stór og sterklegur rammi er brenndur og barinn og myndar þannig eigin sögu. Látlaust saumað verk fær um sig sérsmíðaðan gullramma og verk lagt blaðgulli er rammað inn með tréafgöngum sem annars hefði verið hent án umhugsunar.