Kristín Gunnlaugsdóttir

2022 – Portrett129, Listval Gallery, 02.09 – 08.10

𝘥𝘰𝘶𝘣𝘭𝘦𝘵𝘳𝘰𝘶𝘣𝘭𝘦 er heiti á listrænni samvinnu myndlistarkvennanna Dóru Emilsdóttur og Kristínar Gunnlaugsdóttur. Báðar hafa þær unnið að myndlist frá námsárunum í MHÍ, þar sem vinátta þeirra hófst. Í upphafi 2020 eða byrjun covid, ákváðu þær að hefja samstarf í málun portrettmynda, þar sem ein byrjaði og hin tæki við. Báðar væru þær með þeim hætti höfundar verksins. Náið samstarf af þessu tagi krefst trausts og þekkingar á hinum aðilanum. Bæði var það frelsandi að sjá verkið taka miklum framförum eftir að mótaðilinn hafði tekið við og eins þurfti að kyngja því að sjá hiklaust málað yfir það sem maður var orðinn nokkuð sáttur við. Það mátti allt.

𝘥𝘰𝘶𝘣𝘭𝘦𝘵𝘳𝘰𝘶𝘣𝘭𝘦 kemur ekki á óvart sem nafn á tvíeykinu þar sem léttleiki og húmor er einkennandi fyrir bæði vináttu og samstarf þessara vinkvenna. Gagnrýni og kröfur á listræna útkomu, án málamiðlana er sú sama hjá báðum og byggir á trausti áralangrar vináttu. Upphaf hugmyndarinnar að mála margar portrettmyndir og láta þær mynda eina heild er fengin frá norsku myndlistarkonunni Trude Viken sem málaði eina sjálfsmynd á dag í heilt ár.

Verkefni 𝘥𝘰𝘶𝘣𝘭𝘦𝘵𝘳𝘰𝘶𝘣𝘭𝘦 fór í gegnum svipað hreinsunarferli, frá því að hafa leikgleði og vinna ósjálfrátt sem útgangspunkt, yfir í að leyfa andlitinu eða ásjónunni að leysast upp og afmyndast, nánast hverfa. Sum verk voru tvö ár í vinnslu, önnur tóku nokkrar sekúndur í fæðingu.

Portrettin urðu alls 129.